Hefðbundin hátíðarhöld

Hátíðarhöld á 17. júní verða með hefðbundnum hætti í Ísafjarðarbæ. Á Ísafirði verður boðið upp á andlitsmálningu í Safnahúsinu kl. 11. Skrúðganga verður frá Silfurtorgi kl. 13.45. Lúðrasveit Tónlistarskólans á Ísafirði undir stjórn Madisar Mäekalle tekur á móti göngunni við bæjar- og héraðsbókasafnið og í kjölfarið flytur dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir þjóðfræðingur hátíðarræðu dagsins. Ólína hyggur nú á búferlaflutninga eftir 16 ára búsetu á Ísafirði þar sem hún hefur meðal annars starfað sem skólameistari Menntaskólans á Ísafirði og alþingismaður Norðvesturkjördæmis og er vel við hæfi að hún kveðji sveitunga sína á þennan hátt. Hátíðardagskrá lýkur svo með söng hátíðarkórs undir stjórn Tuuli Raehni og ljóðalestri fjallkonunnar.

Kl. 14.30 hefst dagskrá fyrir börnin þar sem meðal annars verður boðið upp á kassabílarallý, þrautabraut, ratleik, nammiregn og margt fleira.

Á Suðureyri verður árlegt víðavangshlaup Stefnis og verður ræst kl. 11 við Kleifina í Súgandafirði.

Kvenfélagið Hvöt í Hnífsdal verður með 17. júní bingó í félagsheimilinu í Hnífsdal og hefst það kl. 17. Allur ágóði rennur til góðgerðarmála.

Að vanda verður hátíðardagskrá á Hrafnseyri sem áður hefur verið greint frá.

DEILA