Frávísun lögreglustjóra felld úr gildi

Regnbogasilungur.

Ríkissaksóknari hefur fellt úr gildi þá ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum að vísa frá kæru Landssambands veiðifélaga vegna sleppingar regnbogasilungs á Vestfjörðum. Skal lögreglustjórinn taka málið til nýrrar meðferðar. Rök lögreglunnar á Vestfjörðum fyrir frávísuninni voru að Matvælastofnun væri með slysasleppinguna til rannsóknar og meðferðar. Í Vísi er greint frá að ríkissaksóknari bendi á að af rökstuðningi lögreglustjóra verði ráðið að ekki hafi farið fram sérstök athugun eða verið leitað eftir upplýsingum frá Matvælastofnun um hvort kæran geti átt við rök að styðjast. Að mati ríkissaksóknara hefði verið rétt af lögreglustjóra að fara betur ofan í saumana á kæruefninu áður en ákvörðun var tekin um að vísa kærunni frá. Rétt hefði verið að leita eftir upplýsingum frá Matvælastofnun um meintar slysasleppingar, þar með talið að staðreyna hvort eftirlit eða athugun stofnunarinnar hafi farið fram eða væri yfirvofandi eða yfirstandandi og hvað hafi komið fram við þá athugun.

DEILA