Eðlilegt að kjósa um sameiningarviðræður

Pétur G. Markan.

Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps hefur ekki gert upp við sig hvort hann gefi kost á sér í sveitarstjórnarkosningum eftir tæpt ár. „Ég hef ekki tekið ákvörðun um hvort ég gefi kost á mér að nýju. Ég held að það sé ótímabært að gera það á þessu stigi en ég væri að ljúga að þér ef ég segðist ekki vera að hugsa um það. Ég hugsa um það á hverjum degi, um hvað ég hef áhuga á að gera,“ segir hann í viðtali í helgarblaði DV.

Í viðtalinu segir hann augljóst að sveitarfélögum á Vestfjörðum muni fækka og það bíði Bolungarvíkurkaupstaðs, Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps að sameinast í eitt sveitarfélag „í einhverri óræðri framtíð.“ Hann telur eðlilegt að kjósendur veiti stjórnmálamönnum umboð til að ræða sameingarmál.

„Það væri ekki óeðlilegt að samhliða næstu kosningum myndu kjósendur lýsa sinni skoðun á því hvort veita ætti næstu sveitarstjórn umboð til að vinna að þessum málum. Mér þætti það eðlilegt og í raun væri það mjög gott veganesti fyrir næstu sveitarstjórn að hafa. Ef svarið er já, þá er hægt að einhenda sér í að skoða þau mál en ef svarið er nei, þá nær það ekki lengra, þá þarf ekki að láta málið trufla sig það kjörtímabil,“ segir hann í viðtalinu.

DEILA