Dynjandi og Surtarbrandsgil í hættu

Dynjandi er eðlilega einn af vinsælustu áfangastöðum Vestfjarða.

Dynjandi í Arnarfirði og Surtarbrandsgil í Vatnsfirði eru á appelsínugulum lista Umhverfisstofnunar, en þau svæði eru í hættu að tapa verndargildi sínu og þarfnast aðgerða til að snúa þeirri þróun við. Umhverfisstofnun gefur árlega út skýrslu um ástand friðlýstra svæða á Íslandi. Í skýrslunni er friðlýsum svæðum í hættu skipt í tvo flokka, annars vegar fara þau á rauðan lista og hins vegar á appelsínugulan lista. Á rauðan lista fara friðlýst svæði sem eru í verulegri hættu að tapa verndargildi sínu eða hafa tapað því að hluta til en á appelsínugula listanum eru svæði þar sem ástandið er nokkuð betra.

Í skýrslunni kemur fram að Surtarbrandsgil og Dynjandi séu á batavegi en ekki farin af listanum, þar sem flestar framkvæmdir sem áætlaðar voru eru á lokametrunum en ekki búnar. Eftirlit með svæðinu hefur verið aukið, gestastofa Surtarbrandsgils er opnuð á Brjánslæk og vinna við stjórnunarog verndaráætlun er á lokametrunum.

DEILA