Á miðvikudagskvöldum safnast saman lipur og hress hópur á gervigrasvellinum við Grunnskólann í Bolungarvík og spilar Bandý. Það eru allir velkomnir og að sögn skipuleggjenda er viðeigandi búnaður jafnvel til láns fyrir þá sem ekki hafa „græjað“ sig upp. Wikipedia útskýrir bandý svona:

Í bandý eru sex menn í liði, þar af einn markmaður og hafa þeir allir fyrir utan markmanninn kylfu til að stjórna og skjóta kúlunni, en markmaðurinn ver markið með höndum og fótum. Leikmenn mega ekki viljandi nota hendur eða höfuð til að stjórna kúlunni, en leyfilegt er að snerta hana einu sinni í einu með fótunum (oftast til að stoppa hana), en ekki má skora mörk með fótunum eða gefa kúluna með þeim.“

Hópurinn er með facebookhóp þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar.

Á mánudagskvöldum er svo hægt að sprikla á sjúkrahústúninu því þar eru í sumar Ultimate frisbee æfingar og eins og bandýið eru æfingarnar opnar öllum og ókeypis og mögulegt að fá lánaðan viðeigandi búnað.  Og aftur er rétt að leita ráða hjá Wikipedia um þessa skemmtilegu íþrótt.

„Ultimate Frisbí (stundum stafað Ultimate Frisbee) er leikur þar sem tvö lið leika á stórum leikvelli og eru sjö leikmenn í hvoru liði. Svifdiskurinn gengur milli leikmanna með köstum og það lið skorar mark sem tekst að kasta flugdiskinum til samherja sem staddur er á endasvæðinu (þ.e. marksvæðinu). Leikmenn mega hlaupa um völlinn, nema þegar þeir halda á flugdiskinum. Ultimate er hraður leikur sem byggir á mikill samkeppni og þar sem samvinna leikmanna er lykilatriði.“

Nánar má svo fræðast um hópinn á Ísafirði á facebook.

 

 

Skipuleggjendur þessara æfinga leggja áherslu á að allt sé þetta til gamans gert.

DEILA