Alla þingmenn undir fávísisfeldinn

Eva Pandora Baldursdóttir

Undanfarna daga, síðan ég tók sæti á Alþingi eftir nokkurra mánaða fæðingarorlof, hefur mér verið hugsað til samfélagsins og nánar tiltekið hvers konar samfélagi ég vil búa í og vera partur af. Í því samhengi verður mér oft hugsað til könnunar MMR, sem kom út á dögunum, og sýndi að tæplega þriðjungur þjóðarinnar telur lífið vera ósanngjarnt. Viðhorf fólks til lífsins er marktækilega breytilegt þegar horft er til heimilistekna. Tæplega helmingur þeirra sem hafa heimilistekjur undir 400 þúsund krónur á mánuði telja lífið vera ósanngjarnt á meðan einungis fimmtungur þeirra sem hafa milljón á mánuði eða meira í heimilistekjur telja lífið vera ósanngjarnt. Hvernig er hægt að útskýra þetta? Gefa þessar niðurstöður það til kynna að fólk með lægri tekjur sé einfaldlega neikvæðara á lífið heldur en tekjumeira fólk eða gæti verið að þessar niðurstöður bendi sterklega til aukinnar stéttaskiptingar í samfélaginu okkar? Því miður held ég að það seinna nefnda sé líklegra.

Hvernig getur það verið að Ísland sé komið á þann stað að tæplega þriðjungur íbúa þess telja að lífið sé ósanngjarnt? Fræðimenn hafa bent á að ekki sé nóg fyrir samfélög að hafa skilvirk lög og skipulagðar ríkisstofnanir heldur þurfi einnig réttlætinu alltaf að vera framfylgt innan stofnananna og með lagasetningu. Hlutverk samfélagsins á að vera að stuðla að réttlæti fyrir alla íbúa þess þrátt fyrir að innan samfélagsins búi ólíkt fólk sem hefur mismunandi hagsmuna að gæta. Til þess að leggja grunninn að svoleiðis samfélagi væri óskandi að setja löggjafarvaldið, alþingismenn, alla sem einn undir fávísisfeldinn. Fávísisfeldurinn er hugsanaæfing sem John Rawls þróaði árið 1972 í bók sinni Theory of Justice og virkar þannig að hann hylur vitneskju fólks um upphafsstöðu þess í samfélaginu og alla persónulega eiginleika á borð við gáfur, menntun, styrk, fjárhag, stéttarstöðu o.s.fr. Þannig myndi einstaklingurinn ekki hafa hugmynd um hvar hann sjálfur og sitt fólk myndi lenda í samfélaginu. Einstaklingurinn leitast ávallt við að hámarka líkurnar á að hann lifi sanngjörnu lífi og í því ljósi myndi hann reyna að gera samfélagið sem sanngjarnast fyrir sem flesta. Oftast vill einstaklingurinn hámarka hamingju sína og þess vegna er þessi ákveðna hugsanaæfing, sem fávísisfeldurinn er, mjög gagnleg. Í því ljósi er miklu líklegra að alþingismenn myndu skapa samfélag þar sem réttlætislögmál eru höfð að leiðarljósi en ekki eiginhagsmunir. Með því að skapa samfélag undir fávísisfeldi væru valdhafar miklu líklegri til þess að samþyggja að allir einstaklingar hefðu grundvallarréttindi og skyldur. Grundvallar réttindi einstaklinga væru réttindi á borð við kosningarétt, tjáningafrelsi, skoðanafrelsi og eignarrétt en einnig væri líklegt að hugmyndin um réttláta dreifingu efnislegra gæða kæmi fram þar sem misskipting auðs ætti að vera öllu samfélaginu til góða. Dæmi þess efnis væri að hinir ríki borguðu hlutfallslega meiri skatt sem myndi eiga stóran þátt í því að standa undir heilbrigðis- og velferðarkerfi landsins. Því er nefnilega ekki hægt að neita að ef fólk hefur staðfasta vissu á að vera auðugt innan samfélagsins er raunhæfur möguleiki á því að það myndi kjósa að greiða lægri skatta til að standa undir velferðarkerfi sem það sjálf mun ekki koma til með að nýta sér. Ef fólk hefði hins vegar enga hugmynd um fjárhag sinn og stöðu í samfélaginu væri það líklegra til þess að styðja öflugt velferðarkerfi. Í þessu ljósi er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að óréttlætið felst ekki endilega í því að gæðum er misskipt milli einstaklinga og hópa í samfélaginu heldur skapast óréttlætið ef misskipting samfélagsins gagnast einungis ríkasta hluta þess.

Helsta ástæða þess að fólk telur lífið vera ósanngjarnt er ekki endilega sú að fólk telji að allir skulu fá sömu tekjur óháð framlagi. Ósanngirnin er fólgin í því að fólk hefur einfaldlega ekki jöfn tækifæri og misskipting auðs í samfélaginu virðist ekki gagnast neinum nema þeim sem ríkastir eru. Í þessu ljósi vil ég minnast orða Hallgríms Péturssonar: “Undirrót allra lasta. Ágirndin kölluð er.”

Eva Pandora Baldursdóttir

Þingmaður Pírata í Norðvesturkjördæmi

DEILA