Skuttogarinn Páll Pálsson ÍS 102 landaði í morgun í síðasta sinn afla til vinnslu hjá Hraðfrystihússinu – Gunnvöru hf. í Hnífsdal. Páll hefur verið seldur til Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum og verður afhentur nýjum eigendum í Reykjavík á mánudaginn. Á haust tekur nýr Páll Pálsson ÍS 102 við keflinu en unnið að lokafrágangi togarans í Kína.
Páll var einn af fyrstu skuttogurum Íslendinga þegar hann kom nýr til landsins í febrúar 1973 frá Japan þar sem hann var smíðaður. Ýmsar nýjungar fylgdu komu skuttogaranna, t.d. gjörbreyttist öll aðstaða fyrir áhöfn og byrjað var að ísa aflann í plastkassa um borð. Síðar komu fiskkerin og öflugri og betri kæling til sögunnar en skipið fór í endurbætur og lengingu árið 1988 í Póllandi.

Aflasæld hefur fylgt skipinu alla tíð og hefur það borið að landi um 220 þúsund tonn af fiski sé miðað óslægðan afla uppúr sjó. Aflaverðmætið þessi fjörutíu og fimm ár á núverandi verðlagi er um 45 milljarðar króna. Á vef Hraðfrystihússins – Gunnvarar að slíkum árangri væri ekki hægt að ná nema með góðu skipi og vel mannaðri áhöfn. Mannabreytingar hafa verið fádæma litlar í áranna rás, sem sést best á meðalstarfsaldur áhafnar áhafnarinnar er yfir 20 ár. Meðal þeirra sem nú eru í áhöfn hefur Guðmundur Sigurvinsson vélstjóri verið lengst, eða í 36 ár samfleytt á Páli. Guðmundur hefur ákveðið að nú sé komið gott af togaralífinu og fer í land.

Aðeins þrír skipstjórar hafa verið á skipinu. Guðjón Arnar Kristjánsson sótti Pál til Japan og var skipstjóri í 19 ár, Kristján Jóakimson var skipstjóri í 4 ár, en lengst hefur Páll Halldórsson verið skipstjóri en hann hefur verið við stjórnvölinn í 22 ár. Nú styttist í að Páll skipstjóri haldi til Kína til að sækja nýjan og glæsilegan Pál Pálsson.