Aflaverðmætið 45 milljarðar á 44 árum

Páll Halldórsson skipstjóri í brúarglugganum að leggja Páli að í síðasta sinn.

Skuttogarinn Páll Pálsson ÍS 102 landaði í morgun í síðasta sinn afla til vinnslu hjá Hraðfrystihússinu – Gunnvöru hf. í Hnífsdal. Páll hefur verið seldur til Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum og verður afhentur nýjum eigendum í Reykjavík á mánudaginn. Á haust tekur nýr Páll Pálsson ÍS 102 við keflinu en unnið að lokafrágangi togarans í Kína.

Páll var einn af fyrstu skuttogurum Íslendinga þegar hann kom nýr til landsins í febrúar 1973 frá Japan þar sem hann var smíðaður. Ýmsar nýjungar fylgdu komu skuttogaranna, t.d. gjörbreyttist öll aðstaða fyrir áhöfn og byrjað var að ísa aflann í plastkassa um borð. Síðar komu fiskkerin og öflugri og betri kæling til sögunnar en skipið fór í endurbætur og lengingu árið 1988 í Póllandi.

Marsípanterta beið áhafnarinnar á Páli þegar skipið lagðist að bryggju í morgun og Hjalti Þórarinsson, endastjóri Ísafjarðarhafnar, lét sig ekki vanta á þessa merkisstund.

Aflasæld hefur fylgt skipinu alla tíð og hefur það borið að landi um 220 þúsund tonn af fiski sé miðað óslægðan afla uppúr sjó. Aflaverðmætið þessi fjörutíu og fimm ár á núverandi verðlagi er um 45 milljarðar króna. Á vef Hraðfrystihússins – Gunnvarar að slíkum árangri væri ekki hægt að ná nema með góðu skipi og vel mannaðri áhöfn. Mannabreytingar hafa verið fádæma litlar í áranna rás, sem sést best á meðalstarfsaldur áhafnar áhafnarinnar er yfir 20 ár. Meðal þeirra sem nú eru í áhöfn hefur Guðmundur Sigurvinsson vélstjóri verið lengst, eða í 36 ár samfleytt á Páli. Guðmundur hefur ákveðið að nú sé komið gott af togaralífinu og fer í land.

F.v. Bræðurnir Ingimar og Páll skipstjóri Halldórssynir með Einar Val Kristjánssyni framkvæmdastjóra HG.

Aðeins þrír skipstjórar hafa verið á skipinu. Guðjón Arnar Kristjánsson sótti Pál til Japan og var skipstjóri í 19 ár, Kristján Jóakimson var skipstjóri í 4 ár,  en lengst hefur Páll Halldórsson verið skipstjóri en hann hefur verið við stjórnvölinn í 22 ár. Nú styttist í að Páll skipstjóri haldi til Kína til að sækja nýjan og glæsilegan Pál Pálsson.

DEILA