53 teknir fyrir of hraðan akstur

Einn ökumaður var kærður í síðustu viku fyrir ölvun við akstur í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Sá hafði ekið utan í bifreið á Patreksfirði og valdið með því tjóni. Maðurinn var handtekinn og færður til viðeigandi sýnatöku.

Lögregla og slökkvilið í Strandabyggð var kallað að íbúðarhúsi vegna elds sem hafði læst sig í veggklæðningu um miðjan dag þann 8. júní. Íbúar höfðu náð að slökkva eldinn að mestu áður en viðbragðsaðilarnir komu á vettvang. Eldur hafði borist í klæðninguna frá grilli sem notað var til eldunar sem virðist hafa verið of nálægt veggnum og talsvert tjón varð á húsinu.

Ökumaður vélhjóls missti stjórn á hjólinu á Drangsnesvegi um miðjan dag þann 10. júní. Hjólið rann út af malarveginum, og hafnaði utan vegar. Sjúkralið og lögregla fóru á vettvang frá Hólmavík. Maðurinn var fluttur á heilsugæslustöðina á Hólmavík en síðan með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík þar sem hann fékk frekari aðhlynningu. Maðurinn mun hafa hlotið beinbrot við atvikið. Tilkynnt var um tvö önnur umferðaróhöpp en þau voru smávægileg.

Í vikunni bárust lögreglu alls 5 tilkynningar um að ekið hafi verið á lambfé í umdæminu. Þetta var í Strandasýslu, í Dýrafirði og í Ísafjarðardjúpi. Búfjáreigendur eru hvattir til að tryggja að fé gangi ekki nærri vegum en sömuleiðis eru ökumenn hvattir til að gæta varúðar.

Einn ökumaður hefur verið kærður fyrir að aka á hjólbörðum með nöglum í. Það er orðið löngu tímabært að skipta úr vetrarhjólbörðum í sumarhjólbarða. Ökumenn sem trassa þetta mega búast við sektum.

Alls voru 53 ökumenn kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Einn þeirra var mældur á 72 km hraða innanbæjar á Ísafirði þar sem hámarkshraði er 30 km. Við slíku broti liggur 55.000 kr sekt og þriggja mánaða ökuleyfissvipting. Ökumaðurinn var sviptur ökurétti strax í framhaldi brotsins til bráðabirgða.

Skemmtanir í tengslum við sjómannadaginn fóru að mestu leiti vel fram í umdæminu.

Lögreglan vill vekja athygli vegfaraenda á ýmsum framkvæmdum í sem valda truflun á vegasamgöngum. Þetta á m.a. við um þéttbýlið á Patreksfirði og á Ísafirði en einnig í Ísafjarðardjúpi þar sem lagfæring á slitlagi fer fram. Ökumenn eru hvattir til að gæta varúðar og taka tillit til þeirra sem þessum verkum sinna.

DEILA