Vorþytur í Hömrum

Vortónleikaröð Tónlistarskóla Ísafjarðar hefst í kvöld með hinum árlega Vorþyt, er lúðrasveitir tónlistarskólans blása vorið í bæinn, reyndar er allt útlit fyrir að þær blási í kvöld fullbúnu sumri um Hamra þar sem veður er með eindæmum gott. Tónleikarnir verða að þessu sinni haldnir í Hömrum, sal tónlistarskólans, undir yfirskriftinni Lúðrapopp en á efnisskránni verða þekkt popplög í útsetningu Madisar Mäekalle og munu þekkt popplög hljóma, til að mynda eftir Sting, Queen, Alice Cooper, David Bowie, Elton John, Paul McCartney og Mike Oldfield. Sérstakur gestur á tónleikunum verður Gummi Hjalta. Dagskráin á tónleikunum er mjög fjölbreytt

Á tónleikunum koma fram tvær lúðrasveitir: Skólalúðrasveit T.Í. sem skipuð er nemendum skólans og Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar sem er skipuð blásurum á ýmsum aldri sem margir hafa mikla reynslu í farteskinu. Lúðrasveitirnar skipa mikilvægan sess í starfi Tónlistarskólans og taka þær virkan þátt í atburðum og uppákomum í Ísafjarðarbæ. Það er ómissandi að eiga Lúðrasveit til að leiða 1. maí gönguna, spila á 17. Júní,  við tendrun jólatrésins og marga aðra viðburði. Þess má einnig geta að Lúðrasveit TÍ hefur oft komið fram á tónleikum Aldrei fór ég suður og nú síðast var hún einmitt opnunaratriði tónlistarhátíðarinnar.

Tónleikarnir verða  sem áður sagði í Hömrum og hefjast þeir kl. 20. Aðgangseyrir að tónleikunum er 1.000 kr. en ókeypis fyrir börn á grunnskólaaldri.

annska@bb.is

DEILA