Vestri og Víðir mætast á Torfnesvelli

Frá leik Vestra fyrr í sumar.

Vestri mætir Víði frá Garði á Torfnesvelli á morgun. Önnur deild Íslandsmótsins í knattspyrnu hófst um síðustu helgi og Vestri sigraði Fjarðabyggð 1-0 í fyrsta leik með marki frá Þórði Hafþórssyni. Víðir byrjaði deildina með látum þegar liðið sigraði Hött 4-1 á Nesfisksvellinum í Garði. Þjálfarar og fyrirliðar í 2. deild spá Víði 8. sæti í deildinni í sumar en Vestra er spáð öðru sæti, eftir því sem kemur fram í spá Fótbolta.net

Víðir Garði endurheimti sæti sitt í 2. deildinni síðastliðið haust. Víðismenn leika í sumar í fyrsta skipti í 2. deildinni síðan árið 2010.

Ef Vestramenn ætla að standa undir spá Fótbolta.net þá er mikilvægt að byrja tímabilið af krafti og þá sérstaklega á heimavelli. Það gerir liðið best með dyggum stuðningi áhorfenda. Leikurinn hefst á Torfnesvelli kl. 14.

DEILA