Þjálfarar og fyrirliðar í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu spá Vestra öðru sæti í deildinni og að liðið komist þar af leiðandi upp um deild. Það er fréttasíðan Fótbolti.net sem stendur fyrir spánni.
Í umsögn kemur fram að styrkleikar liðsins, öfugt við í fyrra, er að leikmannahópurinn er mikið öflugri og góðir leikmenn hafa bæst við hópinn. Þá eru ungu heimastrákarnir árinu eldri og reynslunni ríkari.
Markaskorunin var ekki mikið vandamál hjá liðinu í fyrra og með reyndan sóknarmann eins og Gilles Mbang Ondo þá ætti sóknarleikurinn ekki að há liðinu. Ondo gekk til liðs við Vestra í vetur og hefur verið að komast í betra form undanfarnar vikur en hann var markakóngur í Pepsi-deildinni með Grindavík árið 2010.
Varnarleikurinn var mikill hausverkur hjá Vestra í fyrra en í umsögn Fótbolta.net segir að liðið virðist hins vegar hafa náð að bæta hann í vetur. Vestri náði ekki alltaf að stilla upp sínu sterkasta liði á undirbúningstímabilinu og leikmenn hafa verið að bætast inn í hópinn undanfarnar vikur. Það gæti því tekið smá tíma fyrir liðið að finna taktinn. Liðið tapaði óvænt gegn bæði Álftanesi og Vængi Júpíters á vordögum og þarf að sýna betri frammistöðu en þar í sumar.
Lykilmenn liðsins eru að mati spámanna Fótbolta.net þeir Aurelin Norest, Gilles Mbang Ondo og Viktor Júlíusson.
Fyrsti leikur Vestra er á laugardaginn á Torfnesvelli þegar liðið mætir Fjarðabyggð. Leikurinn hefst kl. 14.