Útibúi sýslumannsins í Bolungarvík lokað

Í hagræðingarskyni hefur verið ákveðið, að sameina starfsemi embættis Sýslumannsins á Vestfjörðum, sem verið hefur í Bolungarvík og á Ísafirði, undir einu þaki frá og með 1. júní nk. Er miðað við að starfsemin verði á skrifstofu embættisins að Hafnarstræti 1 á Ísafirði, en hætt verði að veita þjónustu í  útibúinu í Bolungarvík. Þar hafa verið tveir starfsmenn sem auk almennrar afgreiðslu önnuðust innheimtu vanrækslugjalds á landsvísu. Hafa þeir við þessi tímamót kosið að láta af störfum hjá embættinu.

Jónas Guðmundsson, sýslumaður á Vestfjörðum, kveðst harma að hafa þurft að grípa til þessa úrræðis en eilífar kröfur um hagræðingu kalli á þessa aðgerð, sem auk fjárhagslegs sparnaðar ætti að leiða til aukinna samlegðaráhrifa á skrifstofunni á Ísafirði. Þá sé stöðugt vaxandi samgangur milli staðanna og auðveldara og öruggra að komast á milli auk þess sem bætt tækni auðveldi samskipti við sýslumenn óháð búsetu. Þá megi nefna að þrír Bolvíkingar vinni á skrifstofunni á Ísafirði.

 

Vill Jónas  þakka Bolvíkingum samfylgdina í Ráðhúsinu í Bolungarvík þau 25 ár sem hann bjó í Bolungarvík og starfaði þar sem og þann tíma sem útibúið á jarðhæðinni hefur verið stafrækt og jafnframt bjóða Bolvíkinga velkomna á skrifstofu embættisins á Ísafirði hvenær sem á þarf að halda.

DEILA