Tvær meistaraprófsvarnir í Háskólasetri Vestfjarða

Háskólasetrið er til húsa í Vestra.

Tvær meistaraprófsvarnir verða í Háskólasetri Vestfjarða í dag, er þær Iona Flett og Kirsten M. McCaffrey verja lokaritgerðir sínar í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun. Fyrri vörnin hefst klukkan 14 og Iona verja ritgerðina How aquaponics can improve aquaculture and help feed a hungry world sem fjallar um samræktun fiska og grænmetis. Aquaponics (samræktun) er aðferð við að sameina sjávareldi og vatnsrækt. Þessi aðferð bætir ekki aðeins vatnsgæði fiskeldis heldur hámarkar hún einnig nýtingu þeirra auðlinda sem notaðar eru í fiskeldi og grænmetisrækt.

Klukkan 17 fer vörn Kirsten fram á ritgerð hennar sem ber titilinn Conservation of Coastal Sand Dune Systems: Social Perceptions of Prince Edward Island National Park Sand Dune Restoration Efforts. Í ritgerðinni eru skoðuð áhrif aðgerða til verndar Cavendish ströndinni í þjóðgarðinum á Prince Edwards eyju í Kanada fyrir ágangi ferðafólks. Niðurstöðurnar geta nýst þjóðgarðinum við að endurmeta hvaða aðgerðir eru árangursríkar og hvort ástæða sé til að breyta framtíðarskipan verndunar sandaldanna. Í ritgerðinni eru einnig lagðar til tillögur um hvernig ná megi fram frekari verndun í gegnum fræðslu gesta með það að markmiði að varðveita sandöldurnar fyrir komandi kynslóðir.

Meira um verkefnin má lesa á vef Háskólaseturs Vestfjarða www.uw.is/

annska@bb.is

DEILA