Á Suðureyri eru ærnar Laufey og Stroka ásamt lömbum sínum mættar til starfa í beitarhólf þar sem sumarstarf þeirra verður fólgið í að eyða óæskilegum gróðri inn í þorpinu. Þær stöllur og afkomendur þeirra voru ekkert að tvínóna við hlutina og tóku strax til við gróðureyðinguna og er von á einni á með lömb til viðbótar í vinnuflokkinn. Það er Kristján Bjarni Karlsson, bóndi á Bæ, sem leggur verkefninu lið með láni á kindum. Verkefnið var fyrst tekið til prufu síðasta sumar er ærnar Ljúfa og Svarta-Hvönn voru í hólfinu ásamt lömbum sínum. Verkefnið tókst með ágætum og voru þau sérlega dugleg að ráða örlögum skógarkerfilsins og lúpínunnar, einnig unnu þær ágætlega á Spánarkerflinum en hann var þó ekki alveg eins vinsæll.
Ralf Trylla, umhverfisfulltrúi Ísafjarðarbæjar hefur lengi viljað prófa þessa aðferð og var hann lengi að finna heppilega girðingu sem gæti haldið aftur af hinu stundum útsjónarsama og gróðursólgna íslenska sauðfé. Girðingin hélt vel og er nú komin upp að nýju. Ralf segir þessa lífrænu leið geta verið afar heppilega, ekki séu kindurnar einungis að sporna við vexti og dreifingu óæskilegs gróðurs, þær séu einnig að bera á lífrænan áburð þar sem þær koma.