Stofna Vestfjarðastofu

Þingfulltrúar á 62. Fjórðungsþingi sem var haldið í Bolungarvík.

Fjórðungsþing Fjórðungssambands Vestfirðinga var haldið í Bolungarvík síðustu viku. Meðal þess samþykkta á þinginu var stofnun Vestfjarðastofu með því að sameina starfsemi Fjórðungssambandsins og Atvinnuþróunarélags Vestfjarða. Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambandsins, segir að með Vestfjarðastofu verði byggðaþróunarmál og atvinnuþróunarmál fjórðungsins komin undir sama hatt. „Að auki er Atvinnuþróunarfélagið hlutafélag sem er ekki heppilegt form þegar sýslað er með opinbert fé,“ segir Pétur.

Innan Fjórðungssambandsins hefur verið rekið byggðaþróunarsvið en atvinnuþróun hefur verið innan vébanda Atvinnuþróunarfélagsins. „Milli þessara mikilvægu og nátengdu málaflokka hefur verið skurður sem við erum að reyna að brúa með Vestfjarðastofu,“ segir Pétur.

Aðspurður um örlög Atvinnuþróunarfélagsins segir Pétur líklegast að Fjórðungssambandið kaupi upp allt hlutafé og það verði lagt niður. „Fjórðungssambandið og Byggðastofnun eru stærstu hluthafarnir svo það ætti að vera tiltölulega auðveld aðgerð.“

DEILA