Símasamband í Vestfjarðagöngum

Farsímasamband er nú komið á í Vestfjarðagöngum, eða göngunum undir Breiðadals- og Botnsheiði líkt og þau heita með réttu. Lítið hefur farið fyrir fréttum af því að slíkt væri í vændum og því vegfarendum sem fara reglulega um göngin nokkrum brugðið í brún er símtæki hafa tekið upp á því að láta í sér heyra. Guðmundur Rafn Kristjánsson hjá Vegagerðinni segir að þetta hafi komið til tals á síðasta ári og ráðist í framkvæmdir nú á vormánuðum er Vegagerðarmenn settu upp búnað til að undirbúa tengingu á sendum. Í síðustu viku settu starfsmenn Símans svo upp GSM-senda. Enn er verið að fínstilla búnaðinn en farsímasamband er í öllum leggjum ganganna. Í göngunum er fyrir Tetra-samband sem lögregla, sjúkralið og björgunarsveitir nýta og símtæki til almannanota í neyðartilfellum. Talsvert öryggi er fólgið í því að vera í stöðugu símasambandi og eflaust margir sem taka þessari viðbót fagnandi.

annska@bb.is

DEILA