Samstillt fegrunarátak í bænum

Grunnskólanemar ætla ekki að láta sitt eftir liggja í Grænni viku.

Árleg „Græn vika“ verður í Ísafjarðarbæ í næstu viku og verður sveitarfélagið með samstillt fegrunarátak fyrir umhverfið til að það megi vera til sem mestrar prýði er sumarið gengur í garð með tilheyrandi útiveru, grillveislum og ferðafólki. Átakið stendur til sunnudagsins 28. maí og taka ýmsar stofnanir bæjarins þátt í því, líkt og grunnskólarnir sem efna til vorverkadaga hjá nemendum. Einnig verður leitað til íbúa og hverfasamtaka um þátttöku, sem og fyrirtækja í bænum, og þannig stuðlað að því að allir leggist saman á árarnar til að prýða umhverfið. Ekki liggur fyrir tímasetningar á hreinsunarátökunum í kjörnunum, en eru íbúar hvattir til að fylgjast með inn á heimasíðu eða Fésbókarsíðu Ísafjarðarbæjar.

Gámar fyrir garðaúrgang verða í öllum þéttbýliskjörnum og skiptir miklu máli að íbúar flokki vel og setji einvörðungu garðaúrgang í þar til gerða gáma. Fyrir íbúa Skutulsfjarðar verður gámur fyrir garðúrgang staðsettur í Funa og reyndar verður hann þar í allt sumar. Í öðrum kjörnum verða garðaúrgangsgámarnir á meðan að Grænu vikunni stendur. Í Hnífsdal verður gámurinn staðsettur við leikskólann, á Suðureyri verður hann við hausaþurrkunina Klofning, á Þingeyri hjá gamla áhaldahúsinu og á Flateyri verður gámurinn staðsettur á höfninni.

Þá verður ýmislegt gert bæði til gagns og til gamans, til að mynda fer fram taupokagerð víða til að gera megi taupokastöðvar í verslunum, svo sporna megi enn frekar við plastpokanotkun. Þá verður Helga Hausner með opinn gróðurgarð að Seljalandsvegi 85 þar sem margar fjölærar plöntur er að finna alla daga vikunnar á milli klukkan 26 og 18, þá býður hún einnig til plöntugöngu fimmtudaginn 25.05 klukkan 14 og hefst hún við Ísafjarðarkirkju.

Hér má fylgjast með dagskrá Grænu vikunnar og verður hún uppfærð eftir því sem fleiri viðburðir bætast við dagskrána.

annska@bb.is

DEILA