Sæmdur heiðurskrossi Skíðasambandsins

Þröstur fékk æðstu viðurkenningu Skíðasambandsins.

Á lokahófi Fossavatnsgöngunnar í íþróttahúsinu á Torfnesi var Þröstur Jóhannesson sæmdur heiðurskrossi Skíðasambands Íslands. Það var Einar Þór Bjarnason, formaður Skíðasambands Íslands, sem afhenti Þresti heiðurskrossinn, sem er æðsta viðurkenning sem Skíðasambandið veitir. Þegar saga skíðagöngunnar á Ísafirði verður skrifuð, verður nafn Þrastar Jóhannessonar áberandi. Hann byrjaði að stunda skíðagöngu á unglingsaldri og komst fljótt í hóp allra bestu skíðagöngumanna landsins og vann til fjölmargra verðlauna á Skíðamótum Íslands. Hápunktur ferilsins var þó líklega þegar hann keppti fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Lake Placid árið 1978.

Eftir að afreksferlinum lauk hefur Þröstur sinnt skíðagönguíþróttinni af alúð og líklega er leitun að afreksmanni sem hefur gefið jafn mikið til baka til íþróttar sinnar eins og Þröstur hefur gert. Hann sinnti þjálfun ungra skíðamanna um árabil, sat í stjórn Skíðaráðs Ísafjarðar, stjórn Íþróttabandalags Ísafjarðar og þannig mætti áfram telja.

Það var vel við hæfi að Þröstur skyldi fá heiðurskrossinn á lokahófi Fossavatnsgöngunnar en þáttur hans í vexti og vinsældum göngunnar er óumdeildur. Um langt árabil sá hann um að troða brautirnar – byrjaði um miðja nótt fyrir keppnisdag, stökk svo úr troðaranum spennti á sig skíðin og keppti. Enn í dag stjórnar Þröstur brautalagningu Fossavatnsgöngunnar. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir þeirri gríðarlegu vinnu sem lögð er í það verk, en fagmennska Þrastar hefur áunnið honum einróma lof þátttakenda og alþjóðlegra eftirlitsmanna.

DEILA