Ráðherra tekur fyrstu skóflustungu að Dýrafjarðargöngum

Teikning af munna Dýrafjarðarganga við Rauðsstaði í Arnarfirði.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra tekur þann 13.maí fyrstu skóflustunguna að langþráðum Dýrafjarðargöngum. Af því tilefni verður boðað til málstofu um vegamál á Hrafnseyri við Arnarfjörð sama dag frá klukkan 13-15:30 og verður skóflustungan tekin í kjölfarið á honum við hátíðlega athöfn klukkan 16 við fyrirhugaðan gangamunna í landi Rauðsstaða skammt frá Mjólkárvirkjun. Til stóð til að skrifa undir samning við aðalverktaka um gerð Dýrafjarðarganga á Hrafnseyri á sumardaginn fyrsta, en þar sem engin voru göngin og komust hluteigandi aðilar, sem og gestir, ekki á staðinn vegna ófærðar á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðum. Samningurinn við aðalverktakann Metrostav A.S, frá Tékklandi og íslenska verktakann Suðurverk hf. var því undirritaður í Reykjavík.
Á málstofunni verða haldnir fyrirlestrar um vegamál á Vestfjörðum þar sem fjallað verður um væntanleg Dýrafjarðargöng, verkáætlun þeirra og hverjar helstu áskoranir kunna að verða, þá verður fjallað um stöðu mála á Dynjandisheiði, sem og fyrirhugaða veglagningu um Teigskóg. Þá verða pallborðsumræður, þar sem Hreinn Haraldsson vegamálstjóri, Jón Gunnarsson samgönguráðherra og fulltrúar Ísafjarðarbæjar og Vesturbyggðar taka til máls og sitja fyrir svörum. Boðið verður upp á kaffiveitingar áður en haldið verður yfir í land Rauðsstaða og eru allir velkomnir.

Dýrafjarðargöng eru mikill áfangi á samgöngukerfi Vestfjarða og mikið fagnaðarefni fyrir íbúa svæðisins sem ef að vonum lætur geta keyrt um þau árið 2020.

annska@bb.is

DEILA