Páll fær kunnuglega liti

Nýr Páll Pálsson búinn að fá HG-litina.

Nýr togari Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. í Hnífsdal sem er í smíðum í Kína er kominn vel á veg. Búið er að sandblása og galvanísera skrokkinn og er hann óðum að fá á sig kunnuglega liti sem hafa prýtt Pál Pálsson í hartnær fimm áratugi. Von er á nýja Páli í lok sumars eða snemma í haust en smíði skipsins hefur dregist nokkuð. Það var vorið 2014 sem tilkynnt var um smíði skipsins.

Skipasmíðastöðin í Kína er með tvö samskonar skip í smíðum fyrir íslenskar útgerðir, Pál fyrir HG og Breka VE fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum. Við hönnun skipanna var olíusparnaður leiðarstef og skrúfur Breka og Páls eru tæplega fimm metrar í þvermál og nýta vélarafl við togveiðar á þann veg að áætlað er að eldsneytissparnaður nemi allt að 40%.

Breki og Páll eiga að skila 19 kg togspyrnu á hvert hestafl en sambærileg ný skip með venjulegar skrúfur skila 14-16 kg á hestafl að jafnaði. Þarna spilar saman stór skrúfa annars vegar og hönnunin á skipsskrokknum hins vegar. Togararnir eru með djúpan kjöl, sem hentar vel þegar troll er dregið. Þyngdardreifing í skipinu skiptir hér miklu máli og skiptir mun meira máli en hvernig stefnið er hannað.

DEILA