Orkubúið verður að auka tekjurnar

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði.

Hagnaður af rekstri Orkubús Vestfjarða árið 2016 nam 96,5 milljónum króna og eigandinn, sem er ríkið, fær 60 milljóna króna arðgreiðslu. Ársfundur Orkubúsins var haldinn í gær. Í ávarpi Viðars Helgasonar stjórnarformanns kom fram að afkoma síðustu tveggja ára hafi verið langt frá því að vera æskileg og skjóta þurfi styrkari stoðum undir tekjuöflun fyrirtækisins. Lykilatriði í því felast í að auka rekstrarlega hagkvæmni og auka orkuframleiðslu Orkubúsins.
Eigið fé Orkubúsins er 5,8 milljarðar króna. Framlegð síðasta árs var 487 milljónir króna og nam veltufé frá rekstri 503 milljónum króna. Fjárfestingar ársins námu 716 milljónum króna. Í ársskýrslu segir að Orkubúið standi eignalega vel, en stendur frammi fyrir áskorunum í að auka arðsemi félagsins.

DEILA