Meirihlutinn andvígur vegtollum

Meirihluti landsmanna er andsnúinn innheimtu veggjalda til að straum af rekstri þjóðvega á Íslandi. Þetta sýnir nýleg könnun MMR sem var framkvæmd 11.-26. apríl 2017. Rúm 39% þátttakenda í könnuninni kváðust mjög andvíg innheimtu veggjalda. Aðeins tæp 7% kváðust mjög fylgjandi innheimtu veggjalda. Á heildina sögðust tæp 56% andvíg veggjöldum en rúm 25% fylgjandi.

Tæp nítján prósent þeirra sem svöruðu könnuninni voru hvorki með né á móti veggjöldum og 18,5% eru frekar fylgjandi veggjöldum.

Karlar (60%) reyndust líklegri en konur (50%) til að vera andvígir veggjöldum. Lítill munur var aftur á móti á kynjunum þegar hlutfall þeirra sem sögðust fylgjandi vegtollum er skoðað. Af körlum kváðust 25% vera fylgjandi og 26% kvenna.

Af þátttakendum á aldrinum 18-29 ára kváðust 32% vera hvorki andvíg né fylgjandi veggjöldum. Með auknum aldri jókst hlutfall þeirra sem voru fylgjandi veggjöldum en 29% þátttakenda 68 ára og eldri sögðust fylgjandi.

Íbúar á landsbyggðinni (63%) reyndust líklegri til að vera andvígir innheimtu veggjalda heldur en íbúar höfuðborgarsvæðisins (52%).

Stuðningsfólk Pírata (57%) og Samfylkingarinnar (50%) reyndust töluvert líklegri en stuðningsflokk annarra flokka til að vera mjög andvíg innheimtu veggjalda. Stuðningsfólk Viðreisnar reyndist aftur á móti mun líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að vera frekar eða mjög hlynnt veggjöldum eða 45%.

DEILA