Lúsasmit kemur ekki á óvart

Jón Helgi Björnsson.

Eins og greint var frá fyrir helgi hefst innan skamms lyfjameðhöndlun vegna laxalúsar í Arnarfirði. Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, segir þetta slæm tíðindi en þau komi engan veginn á óvart. „Þetta sýnir fram á það sem við höfum alltaf haldið fram. Þegar menn fara í svona umfangsmikið eldi þá koma upp þessar lúsasýkingar,“ segir hann.

Laxalús þrífst illa við lágt hitastig og í tilkynningu Matvælastofnunar um viðbrögð vegna laxalúsar í Arnarfirði segir að hiti sjávar í firðinum hafi verið óvenjulegur í vetur og sem dæmi var meðalhiti sjávar í Arnarfirði 3,5°C í febrúar á þessu ári en 1,5°C á sama tíma í fyrra.

Jón Helgi segir að hærra hitastig geti vissulega haft einhver áhrif en hann telur ekki að þetta verði einstakur atburður vegna hærri hita sjávar. „Við höfum ekki hitt nokkurn erlendan lúsasérfræðing sem heldur öðru fram en að lúsasýkingar fylgi umfangsmiklu eldi.“

Hann segir það algjörlega ljóst að verði af stórfelldum laxeldisáformum í Ísafjarðardjúpi og Eyjafirði muni lúsin fylgja í kjölfarið með verulega neikvæðum afleiðingum fyrir náttúrulega stofna.

DEILA