Kvennakórar flykkjast til Ísafjarðar

Kvennakór Ísafjarðar.

Á fimmtudaginn verður landsmót Gígjunnar, Landssambands íslenskra kvennakóra, sett á Ísafirði. Landsmótið stendur fram á sunnudag og er þetta í tíunda sinn sem það er haldið.
Von er á um 300 þátttakendum úr kórum víðsvegar af landinu til Ísafjarðar á landsmótið, sem mun því teljast til stærri menningarviðburða á Vestfjörðum.

Ýmsir kórstjórar sem og tónlistarmenn munu koma við sögu og hefur verið lagt kapp á að gefa landsmótinu vestfirskt yfirbragð. Þátttakendur munu vinna í fimm „smiðjum“ sem hver hefur sitt þema. Sem dæmi verður er ein smiðja með BG-þema. Einnig munu allar þessar syngjandi konur mynda einn stóran kór.

Til að kynna afraksturinn verða tvennir tónleikar í boði. Báðir tónleikarnir fara fram í íþróttahúsinu á Torfnesi. Fyrri tónleikarnir eru á dagskrá föstudaginn 12. maí kl. 17:30 og þá flytur hver kór stutta efnisskrá. Á seinni tónleikunum sem hefjast kl. 15 laugardaginn 13. maí, kynnir hver smiðja sitt efni og að lokum kemur samkórinn fram og flytur nokkur lög saman. Þar ber helst að nefna landsmótslagið sem samið hefur verið sérstaklega fyrir þetta landsmót og verður frumflutt á tónleikunum. Kvennakór Ísafjarðar valdi fallegt ljóð eftir Harald Stígsson frá Horni og lagið er eftir ísfirska tónskálldið Halldór Smárason.

Landsmót íslenskra kvennakóra er einstakur menningarviðburður þar sem mjög fjölbreytt kóratónlist er í boði. Kvennakór Ísafjarðar vonast til að sjá sem flesta heimamenn á tónleikunum.

DEILA