Karlotta Blöndal sýnir í Gallerí Úthverfu

Á laugardag opnar Karlotta Blöndal sýninguna Sporbrautir í Gallerí Úthverfu. Þar gefur að líta ný verk sem Karlotta hefur unnið á undanförnum mánuðum fyrir sýningarsal Gallerís Úthverfu sem tengjast öll í gegnum teikningu. Karlotta Blöndal útskrifaðist frá Listaakademíunni í Malmö 2002 og býr nú og starfar í Reykjavík. Hún hefur sýnt víða, bæði hér á landi sem erlendis og hefur dvalið á ýmsum vinnustofum í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Hún ritstýrði og var meðútgefandi tímaritsins Sjónauka (tímarit um myndlist og fræði) auk þess að hafa komið að nokkrum listamannreknum rýmum. Hún hefur verið stundakennari við Listháskóla Íslands og er nú stundakennari við Myndlistarskólann í Reykjavík.
Um sýninguna í Úthverfu segir Heiðar Kári Rannversson listfræðingur: Þrír hnettir á sí-endurtekinni ferð um sporbraut í himingeimnum, einn er ljós, annar er dökkur. Við, sem erum áhorfendur á sýningu Karlottu Blöndal í Gallerí Úthverfu, erum stödd á þriðja hnettinum. Hann er hvorki hvítur né svartur heldur sýnist blár í mikilli fjarlægð. Skyndilega dimmir í galleríinu, það er eins og einhver sé að dempa ljósin. Við skynjum hvernig dregur úr birtu smám saman og áttum okkur á því að einn hnötturinn er byrjaður að skyggja á annan, sá dökki hefur lent í beinni sjónlínu milli okkar og ljósa hnattarins, hann byrgir okkur sýn. Það verður sífellt dimmara þangað til orðið er algert myrkur og við rétt greinum útlínur verkanna á veggjum gallerísins. Skuggamyndir. Í sama andartaki birtir og fljótlega er orðið jafn bjart og áður, verkin koma í ljós á ný. Atburðurinn sem við höfum orðið vitni að stendur ekki mjög lengi yfir, aðeins í örfáar mínútur. Gæti hugsast að tíminn sem hið mikla myrkur átti sér stað hafi verið svipað langur og tæki að teikna litla teikningu, kannski eins og þær sem settar hafa verið upp á sýningunni í galleríinu þar sem við erum stödd?
Karlotta leggur stund á teikningu, en athöfnin að teikna er fyrir listamanninum spunakennd iðkun. Hver teikning er atburður sem tekur ekki langan tíma, stundum örfáar mínútur. Í verkum sýningarinnar má greina feril blýantsins í teikningunni og fylgja þannig hendi listamannsins eins og hún væri á braut um spor í rými pappírsins. Eins og hnöttur á spori um himingeiminn. Hvort erum við á leið inn í myrkrið eða í átt að birtunni? Það kemur í ljós.
Sýningin verður opnuð kl. 16 á laugardaginn að viðstöddum listamanninum. Boðið verður upp á léttar veitingar og allir eru velkomnir.

annska@bb.is

DEILA