Hverfandi menning í Djúpinu

Sigmundur Sigmundsson, fyrrverandi bóndi á Látrum, er eitt viðfangsefna sýningarinnar.

Hverfandi menning – Djúpið er nafn á sýningu á ljósmyndum eftir Þorvald Örn Kristmundsson sem opnar í sal Listasafns Ísafjarðar í Safnahúsinu núna á laugardaginn.
Menningararfleifð okkar er í stöðugri mótun og breytingu. Í því skyni að varðveita hverfandi þætti úr menningu okkar er mikilvægt að fanga þá og festa í minninu til frambúðar í stað þess að skilja eftir óskrifað blað. Verkið  „Hverfandi menning – Djúpið “ gefur innsýn í menningu og samfélag bænda í Ísafjarðardjúpi ásamt þeim stórstígu félagslegu breytingum sem eiga sér nú stað. Hérlendis líkt og víðar hefur þjóðfélagsþróun síðustu ára reynst mun örari en áður hefur þekkts. Rótgróin menningarsamfélög og hefðir hafa tekið stakkaskiptum. Unga fólkið tekur ekki við bústörfum forfeðranna heldur flytur í bæi og borgir á vit nýrra og fjölbreyttari tækifæra. Sýningin samanstendur af svarthvítum ljósmyndum af þeim bændum í Djúpinu, eyðibýlum, landslagi og öðrum sérkennum þessarar menningar sem nú er að hverfa.

Þorvaldur hefur unnið við fjölmiðlun frá 1991-2012, aðallega hjá Frjálsri Fjölmiðlun og Árvakri. Í dag er Þorvaldur forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Inkasso og stundar nám í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Þorvaldur hefur haldið fjölda einkasýninga á 20 ára ferli sínum og meðal Visa Pour l´Image – Perpignan, France, Copenhagen Photo Festival og Perspektivet Museum Tromsø Norway. Þorvaldur hefur setið í stjórn og samninganefnd Blaðamannafélags Íslands og verið formaður Blaðaljósmyndara Félags Íslands í 12 ár. Frá 1997 til 2001 vann Þorvaldur verkefni tengt flóttafólki og stríðshrjáðum svæðum í Afganistan, Pakistan, Íran, Kosovó og Bosníu ásamt átökum Palestínumanna og Ísraelsmanna.

Sýningin verður opnuð kl 14.

DEILA