Grásleppudögum fjölgað um 10

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að fjölga veiðidögum á grásleppuvertíð úr 36 í 46. Það verður gert með reglugerð sem tekur gildi næsta miðvikudag.

Líkt og fram hefur komið hefur heildarveiði á grásleppuvertíð verið dræm. Á því eru nokkrar skýringar, meðal annars eru færri bátar á sjóð og aflabrögð verði með lakara móti. Hafrannsóknastofnun lagði til 6.355 tonna heildarveiði fyrir vertíðina og er sú ráðgjöf óbreytt.

Ráðuneytinu er ljóst að þessi ákvörðun kemur seint en lengi var vonað að afli tæki að glæðast. Fyrir liggur að þeir sem hófu fyrstir veiðar eru búnir að taka upp netin og strandveiðar að hefjast. Eftir sem áður er mikið í húfi fyrir þá sem stunda grásleppuveiðar áfram og þá sem hafa atvinnu af þeim í landi, m.a. við vinnslu afurða að allt verði reynt til að ná því magni sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til.

DEILA