Gera áhættumat fyrir erfðablöndun laxastofna

Vinna er hafin á gerð áhættumats vegna mögulegrar erfðablöndunar eldislax við íslenska, villta laxastofna. Þetta kemur fram í svari Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Bjarna Jónssonar, varaþingmanns Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi.

Markmið áhættumatsins er að meta hve mikið umfang eldis má vera á hverjum stað án þess að það valdi óafturkræfum skaða á náttúrulegum laxastofnum vegna erfðablöndunar. Í svari ráðherra kemur fram að við gerð áhættumatsins verða notuð bestu fáanlegu gögn um hlutfall sleppinga, áhrifa hafstrauma, fjarlægð áa og stofnstærð laxa í ám auk erfðasamsetningar villtra stofna.

Hafrannsóknastofnun annast framkvæmd verkefnisins með hjálp erlendra sérfræðinga.

DEILA