Fyrsta sprenging í ágúst

Gangamunni Dýrafjarðarganga við Rauðsstaði í Arnarfirði.

Framkvæmdastjóri Suðurverks segir að flutningur vinnubúða og uppsetning þeirra í Arnarfirði hefjist fljótlega upp úr næstu helgi. Suðurverk ásamt tékkneska verktakanum Metrostvav grafa göngin. Dofri Eysteinsson, framkvæmdastjóri Suðurverks, segir í samtali við blaðamann Morgunblaðisins að nú sé aðallega unnið að því að fá til landsins tæki til að vinna verkið.

Suðurverk á vinnubúðir í Mjóafirði sem notaðar voru við vegarlagningu þar. Dofri segir að byrjað verði á því að flytja þær í Arnarfjörð. Þá geti menn farið að koma sér fyrir, setja upp verkstæði, sprengiefnageymslu og fleira.

Hann gerir ráð fyrir að fyrstu sprengingar verði ágúst. Tékkneska fyrirtækið mun alfarið sjá um sprengngar en starfsmenn Suðurverks aka frá þeim grjóti og vinna ýmis önnur störf. Tékkarnir verða með sprengigengi við gangagerðina. Byrjað verður að sprengja Arnarfjarðarmegin og grafnir þaðan um 4 kílómetrar og það sem upp á vantar á 5.300 metra löng göngin verður grafið úr Dýrafirði. Við bætast 300 metra vegskálar þannig að heildarlengd ganganna verður 5,6 kílómetrar. Auk þess þarf að leggja vegi beggja vegna ganganna, alls tæpa 8 kílómetra, og tvær brýr.

Stærsti hluti ganganna verður eins og áður segir grafinn Arnarfjarðarmegin og má búast við að vinnubúðirnar verði verulega einangraðar yfir vetrartímann þegar Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði teppast. „Þeir verða að birgja sig vel upp af olíu, sprengiefni, sementi og öllu sem þeir þurfa til að geta haldið áfram,“ segir Dofri.

DEILA