Einstök upplifun að fara til Hesteyrar

Spennumyndin Ég man þig verður frumsýnd á morgun. Myndin er gerð eftir samnefndri bók Yrsu Sigurðardóttur. Bókin kom út árið 2010 og seldist í hátt í 30 þúsund eintökum.

Lauslega fjallar myndin um ungt fólk sem er að gera upp hús á Hesteyri um miðjan vetur fer að gruna að þau séu ekki einu gestirnir í þessu eyðiþorpi. Á Ísafirði dregst nýi geðlæknirinn í bænum inn í rannsókn á sjálfsmorði eldri konu, en svo virðist sem hún hafi verið heltekin af syni hans, sem hvarf fyrir nokkrum árum og fannst aldrei.

Myndin var meðal annars tekin upp á Ísafirði og á Hesteyri. .„Að fara til Hesteyrar var eftirminnilegast við þetta ferli. Aðstæður þar eru frumstæðar, þar er ekki rafmagn og við vorum ekki í símasambandi. Þetta gerði hópinn samheldinn. Að vera þarna í viku í tveimur húsum, allir í kojum, ekkert rafmagn og frekar kalt, en við reyndum að hafa húsin notaleg, það var einstök upplifun,“ sagði Óskar Þór Axelsson, leikstjóri myndarinnar í Kastljósi RÚV í gær.

Ég man þig verður frumsýnd í Ísafjarðarbíó kl. 20 annaðkvöld og myndin verður sýnd sjö sinnum.

DEILA