Dúxaði með 9,49 í meðaleinkunn

Svanhildur Sævarsdóttir, dúx Menntaskólans á Ísafirði.

Á laugardag voru 52 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Þrjátíu og tveir nemendur luku stúdentsprófi og var dúx skólans Svanhildur Sævarsdóttir með meðaleinkunnina 9,49. Svanhildur hlaut einnig verðlaun Landsbankans fyrir framúrskarandi árangur í sálfræði og uppeldisfræði, verðlaun Hugvísindasviðs HÍ fyrir framúrskarandi árangur í erlendum tungumálum, verðlaun Menntaskólans á Ísafirði fyrir framúrskarandi árangur í íslensku, verðlaun Sögufélags Ísfirðinga fyrir framúrskarandi árangur í sögu, verðlaun Eymundsson fyrir framúrskarandi árangur í ensku, verðlaun Íslandsbanka fyrir framúrskarandi árangur í félagsgreinum og verðlaun Aldarafmælissjóðs Ísafjarðarbæjar fyrir hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi.

Semidúx var Dóróthea Magnúsdóttir með meðaleinkunnina 9,40. Hún hlaut jafnframt verðlaun íslenska stærðfræðingafélagsins fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði og verðlaun Þýska sendiráðsins fyrir framúrskarandi árangur í þýsku.

Stálsmiðir sem útskrifuðust frá MÍ.

Þá luku átta nemendur réttindum A náms vélstjórnar og sjö nemendur réttindum B-náms. Brautskráðir voru fimm stálsmiðir og einn sjúkraliði. Þrjú tónlistaratriði voru í athöfninni sem nýstúdentar sáu um og risu gestir úr sætum eftir einsöng Arons Ottó Jóhannssonar og klöppuðu honum lof í lófa.

Fimm luku vélstjórnarnámi og einn sjúkraliði útskrifaðist.

Um kvöldið var síðan haldinn útskriftarfagnaður þar sem saman voru komnir 370 manns og hefur fagnaðurinn aldrei verið svo fjölmennur. Á fagnaðinn mættu starfsmenn skólans, 10, 20, 30 og 40 ára afmælisárgangar og svo auðvitað útskriftarnemendur og fjölskyldur þeirra. Heiðrún Tryggvadóttir var veislustjóri og var margt til skemmtunar, líkt og skemmtiatriði frá árgöngum, kennurum og útskriftarnemendum. Halldór Smárason sá um tónlist yfir kvöldverðinum og hljómsveitin Húsið á sléttunni lék fyrir dansi að borðhaldi loknu. Fjörið var hvílíkt að varla sást í auðan blett á dansgólfinu frá upphafstónunum að lokalaginu.

Glæsilegur hópur nýstúdenta.

Þetta var síðasti útskriftarfagnaðurinn sem Hugljúf Ólafsdóttir eða Lúlú og hennar fjölskylda sjá um en hún hefur séð um matinn á útskriftarfögnuðum síðustu 19 ára. Veisluborðin svignuðu undan kræsingum og var afar vel látið af matnum. Að borðhaldi loknu var Lúlú og fjölskylda kölluð fram og var risið úr sætum og þeim fagnað. Systur Lúlú, synir og tengdadætur voru öll mætt hingað vestur til að aðstoða við framkvæmdina.

annska@bb.is

DEILA