Bolungarvík á Ströndum hreinsuð í ár

Árleg hreinsunarferð verður farin í Hornstrandafriðlandið dagana 26.-27.maí. Að þessu sinni verður siglt í Hrafnfjörð og þaðan gengið yfir í Bolungarvík á Ströndum þar sem verður gist eina nótt. Ferðir sem þessar hafa verið farnar frá árinu 2014 og er það Ísfirðingurinn Gauti Geirsson sem skipuleggur þær. Fjölmargir sjálfboðaliðar hafa lagt verkefninu lið ár hvert og hafa oftar en ekki komist færri að en vilja. Að meðaltali hefur hópurinn tínt saman 5 tonn af plasti á ári og hafa því í heildina verið hreinsuð 15 tonn af rusli af strandlengju friðlandsins.  

Gauti segir tilganginn með verkefninu er vera tvíþættan, annars vegar að hreinsa svæðin og koma í veg fyrir að plastið brotni niður og berist útí lífríkið og hins vegar að reyna að fá fólk til þess að vera meðvitað um eigin neyslu og umgengni þar sem rannsóknir sýni að mikill meirihluti af plastrusli sem berst í sjóinn í dag komi af landi.

Þó verkefnið sé göfugt er það er ekki framkvæmt nema fyrir tilstuðlan styrktaraðila og að þessu sinni hafa staðfest þátttöku í verkefninu: Landhelgisgæslan, Ísafjarðarbær, Umhverfisstofnun, Vesturferðir, Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar , Aurora Arktika, Skeljungur, Reimar Vilmundarson og Gámaþjónusta Vestfjarða. Ferð sem þessi er líka ýmsu háð, til að mynda að veður veri skaplegt og að varðskipið verði ekki upptekið við skyldustörf. Sem áður segir er hún áætluð síðustu helgi maímánaðar, farið verður föstudaginn 26.maí og laugardaginn 27.maí verður hreinsað í Bolungarvík og ruslið ferjað í varðskipið sem síðan ferjar hópinn heim um kvöldið að lokinni grillveislu. Tekið verður við skráningum í ferðina um miðjan mánuðinn.

Að meðaltali hafa verið hreinsuð 5 tonn af rusli árlega í hreinsunarferðum í Hornstrandafriðlandið

Á meðfylgjandi korti má sjá þau svæði sem hafa verið hreinsuð og hvað fyrirhugað er að hreinsa í ár, en ef tími gest til verður líka hreinsað í Barðsvík í ár.

annska@bb.is

 

 

 

DEILA