Aukið umferðareftirlit

Ellefu ökumenn voru í síðustu viku kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Flestir þeirra voru stöðvaðir í Strandasýslu en einnig á Djúpvegi. Sá sem hraðast ók var mældur á 134 km hraða. Lögreglan á Vestfjörðum hefur og mun efla umferðareftirlit og eru ökumenn hvattir til að virða umferðarlög í einu og öllu. Þannig lágmörkum við hættuna á umferðarslysum.

Einn ökumaður var kærður fyrir að nota farsíma við akstur, án handfrjáls búnaðar.

Tilkynnt var til lögreglunnar á Vestfjörðum um að ekið hafi verið utan í mannlausa bifreið sem stóð á bifreiðastæði við knattspyrnuvöllinn á Torfesi á Ísafirði síðdegis laugardaginn 13. maí. Bifreiðin sem um ræðir er af gerðinni Skoda Octavia, grábrún að lit. Þeir sem geta gefið upplýsingar um atvikið eru hvattir til að hafa samband við lögregluna í síma 444 0400.

DEILA