Áfram indælisveður

Nú hefur óvenjulega hlýr loftmassi sest yfir landið, segir í hugleiðingum veðurfræðings um veðurhorfur í dag og næstu daga. Í gær mældist mjög hár hiti á norðaustanverðu landinu þar sem saman fór hlý sunnan gola og sólskin. Á Vestfjörðum voru sett hitamet á tveimur mönnuðum veðurstöðvum. Í Bolungarvík náði hitinn 18 gráðum og í Litlu Ávík á Ströndum mældist 16,6 gráðu hiti í gær og hefur aldrei mælst svo hár hiti í maí á veðurstöðvunum.
Hæstu hitatölur sem mældust á landinu í gær voru:
22,8C í Ásbyrgi
22,8C í Bjarnarey (það er lítil eyja skammt utan við skagann sem skilur að Héraðsflóa og Vopnafjörð)
22,7C á Húsavík.

Til að setja þessar hitatölur í samhengi þá var hæsti hiti sem mældist allt síðasta sumar 24,9C þann 3. júní á Egilsstaðaflugvelli eða einungis 2 stigum hlýrra en mældist í gær.

Í dag má áfram búast við indælisveðri á Vestfjörðum með hlýindum og bjartviðri að mestu. Veðurstofa Íslands spáir í minnkandi suðlægri átt, 3-10 m/s og léttskýjuðu að mestu og verða hitatölurnar sannarlega í hærri kantinum fyrir byrjun maímánaðar er hann verður 10 til 18 stig. Hægviðri í kvöld og á morgun og sums staðar þokuloft.
Vegir eru eru greiðfærir en búast má við töfum á umferð um Hvalfjarðargöng í nótt vegna hreinsunar á vegbúnaði.

Það er áfram útlit fyrir rólegt veður á landinu næstu daga, en gera má ráð fyrir að ský og þokuloft verði algengari þegar kemur fram á helgina og að háar hitatölur verði sjaldgæfari.

DEILA