Aflasamdráttur í apríl

Fiskafli í apríl var 5% meiri en hann var í apríl árið 2016, eða rúmlega 109 þúsund tonn eftir því sem kemur fram í frétt Hagstofunnar. Metinn á föstu verðlagi var fiskaflinn 10,7% minni en ári fyrr. Mestu munar um aukin kolmunaafla, en það veiddust 67 þúsund tonn í apríl í ár samanborið við 56 þúsund tonn í fyrra.

Hins vegar dróst botnfiskafli saman á milli ára, og veiddust tæp 40 þúsund tonn af botnfisktegundum samanborið við 43 þúsund tonn fyrir ári. Samdrátturinn í þorskafla milli ára er 10%, og veiddust rúm 18 þúsund tonn af honum í aprílmánuði.

Ef horft er til 12 mánaða tímabils frá maí 2016 til apríl 2017 sést að heildaraflinn hefur dregist saman um 59 þúsund tonn eða 5% samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr.

DEILA