Afkoman sú lakasta í 20 ár

Sterk króna mun líklega leiða til þess að afkoma í sjávarútvegi í ár verði hin versta í 20 ár. Þetta kemur fram í úttekt greiningardeildar Arion banka. Reiknað er með að hlutfall EBITDA-hagnaðar af tekjum verði 13% í ár en til samanburðar var það 30% á árunum 2011 og 2012. Breytt landslag kallar ugglaust á hagræðingu í greininni. „Það er ekki lengur góðæri í sjávarútvegi,“ segir Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, í samtali við ViðskiptaMoggann. Þrátt fyrir að efnahagur sjávarútvegsins sé í heild traustur bendir Konráð á að tæpur fjórðungur sjávarútvegsfyrirtækja var með neikvætt eigið fé árið 2015.

„Það eru allar líkur á því að einhver uppstokkun muni eiga sér stað í sjávarútvegi til að mæta breyttum aðstæðum, hvort sem það verður með sameiningum eða fyrirtækjunum takist að bregðast við með öðrum hætti,“ segir Konráð.

DEILA