Æskan streymir út í sumarið

Frá siglinganámskeiði Sæfara síðasta sumar. Mynd: Guðrún Jónsdóttir.

Þessa dagana streymir æska landsins í sumarfrí er grunnskólar einn af öðrum slíta starfi vetrarins. Eflaust er fríið kærkomið hjá mörgum sem setið hafa yfir því löngum stundum að fylla á þekkingarbrunninn fyrir lífið sem bíður handan við hornið með sín spennandi tækifæri. Skólaslit hafa þegar farið fram á nokkrum stöðum í fjórðungnum, eins og öllum smærri kjörnum Ísafjarðarbæjar og í Bolungarvík. Skólalit verða svo í Grunnskólanum á Ísafirði og grunnskólunum í Vesturbyggð á föstudag.

Það verður ýmislegt hægt að gera í sumarfríinu líkt og lesa má um í nýútkomnum bæklingi um íþrótta- og tómstundastarf í Ísafjarðarbæ í sumar; siglinganámskeið, leikjanámskeið, sumarnámskeið í körfubolta og námskeið hjá Rauðakrossinum, svo dæmi séu tekin. Þá geta eldri grunnskólanemar farið að æfa sig fyrir lífið á vinnumarkaðinum í Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar sem verður starfræktur í sumar frá 6. júní til 28. júlí  á Ísafirði og á Þingeyri. Svo er það auðvitað að njóta íslenska sumarsins, njóta samvista með fjölskyldunni og leika sér áður en snúið er aftur til náms er haustar á ný.

DEILA