Vilja lágmarksíbúafjölda í sveitarstjórnarlögin

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var 24. mars, var lögð fram skoðanakönnun um ýmis mál fyrir landsþingsfulltrúa. Meðal annars var spurt hvort sambandið ætti að leggja til ákvæði um lágmarksíbúafjölda varðandi stærð sveitarfélaga í sveitarstjórnarlögin og hver þau mörk ættu að vera ef svarið við fyrri spurningunni væri já.

Rúmlega 63% þeirra sem tóku þátt í könnuninni telja að sambandið eigi að leggja til að slíkt ákvæði verði sett inn í sveitarstjórnarlögin. Þriðjungur svarenda taldi hins vegar að sambandið ætti ekki að leggja það til. Fimm einstaklingar vildu ekki svara spurningunni eða merktu við valkostinn „veit ekki“. Alls svöruðu 136 einstaklingar könnuninni.

Seinni spurningin sneri að því hver lágmarksíbúafjöldinni ætti að vera ef slíkt ákvæði kæmi inn. Alls voru gefnir upp níu valkostir ásamt svarreitnum annað. Flestir eða 20 einstaklingar töldu að lágmarkið ætti að vera 3.000 íbúar og þar á eftir kom valmöguleikinn 1.000 íbúar.

smari@bb.is

 

DEILA