Viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu enn í gildi

Gæsir í oddaflugi.

Matvælastofnun vill minna á að enn er í gildi aukið viðbúnaðarstig vegna hættu á að alvarlegt afbrigði af fuglaflensu geti borist frá villtum fuglum í alifugla og aðra fugla í haldi. Greiningum á fuglaflensu af völdum þessa afbrigðis í Evrópu hefur fækkað en enn eru taldar nokkrar líkur á að það berist með farfuglum hingað til lands. Á fræðslufundi sem Matvælastofnun hélt með alifuglaeigendum í síðustu viku var m.a. farið yfir hvernig brugðist yrði við greiningu á fuglaflensu í villtum fuglum. Matvælastofnun biður fólk um að tilkynna um dauða eða veika villta fugla til stofnunarinnar.

Síðastliðinn mánuð hefur greiningum á alvarlegu afbrigði fuglaflensu af sermisgerðinni H5N8 fækkað verulega á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum. Það er að hluta til útskýrt með því að þar er komið vor og í hærra hitastigi minnkar fjöldi virkra fuglaflensuveira hraðar en þegar kalt er. Alvarlegt afbrigði fuglaflensu greindist m.a. á vetrarstöðvum íslensku farfuglanna, sem þeir hafa nú flestir yfirgefið og eru komnir til landsins. Starfshópur, sem skipaður er sérfræðingum Matvælastofnunar, Háskóla Íslands, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum og sóttvarnarlæknis, telur að enn sé ekki útilokað að fuglarnir hafi borið veiruna til landsins.

Fram til þessa hafa 19 tilkynningar borist um samtals 49 dauða fugla. Í sumum tilvikum var að mati stofnunarinnar ekki ástæða til sýnatöku og í öðrum voru fuglshræin of gömul eða horfin þegar komið var að til töku sýna. Hingað til hafa því aðeins verið rannsökuð fimm sýni; eitt úr álft og fjögur úr æðarfuglum. Þau voru öll neikvæð. Matvælastofnun hvetur fólk um að vera áfram á verði og tilkynna til stofnunarinnar þegar hræ af villtum fuglum finnast og orsök dauða fuglanna er ekki augljós, svo sem flug á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla. Til að tilkynna um dauða fugla er farið á heimasíðu stofnunarinnar, www.mast.is, smellt á hnappinn sendu ábendingu og upplýsingar færðar inn

DEILA