Um hafið, fjöllin og þetta margslungna fólk

Sæbjörg Freyja Gísladóttir

Á morgun kl.16:00 í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík mun Sæbjörg Freyja Gísladóttir þjóðfræðingur fjalla um meistararitgerð sína.  Rannsóknin fyrir ritgerðina fór fram á Flateyri á árunum 2013-2016.

Að sögn Sæbjargar var rannsóknin etnógrafía, sem felur í sér að rannsakandi reynir að verða hluti af samfélaginu og skilja hvaða óskrifuðu reglur íbúarnir hafa. Sæbjörg flutti jafnframt á Flateyri 2014 og öðlaðist við það dýpri innsýn í samfélagið. Það fylgja því bæði kostir og gallar að búa í smáu sjávarþorpi. Nándin er mikil og traust til náungans er lykilatriði. Stríðnin getur þó verið harkaleg og hvert skref sem einstaklingar tekur er skráð í minni annarra. Það þola ekki allir slíka nánd en ef einhver flytur eða deyr þá snertir það alla í þorpinu. Fiskvinnslan og atvinna hafa alla tíð verið fremur ótrygg á Flateyri en niðurstöður rannsóknarinnar voru meðal annars þær, að á meðan vinnu væri að fá, þá vildi fólk hafa fasta búsetu á eyrinni.

Af hverju Flateyri? Af hverju flytur hópur af Filipseyingum, Pólverjum, Spánverjum, Þjóðverjum, Suður-Afríkubúum, Englendingum og fólk af allskonar þjóðernum á Flateyri? Af hverju á heimsfræg bandarísk myndlistakona hús í þorpinu? Eða leikarapar frá Finnlandi? Eða fremstu kvikmyndagerðarmenn á Íslandi? Eða háskólakennari úr Reykjavík? Hvar eru trillukarlarnir? Og af hverju ákveður meistaranemi í þjóðfræði að gera lokaritgerð um þetta tiltekna þorp? Er ekki allt í volli þar? Frystihúsið alltaf lokað og snjóflóð rétt handan við hornið? Eða er bara eitthvað „sport að vera svona útí rassgati,“ eins og einn viðmælandinn sagði.

bryndis@bb.is

 

DEILA