Stjórnvöld standi við loforð um innviðauppbyggingu

Aðalfundur svæðisfélags Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á Vestfjörðum ætlast til að stjórnvöld standi við gefin loforð um uppbyggingu innviða samfélagsins. Gera þarf miklar breytingar á langsveltu menntakerfi þannig að hægt sé að tala um jafnrétti til náms á Íslandi. Í ályktun fundarins sem var haldinn á mánudag segir að heilbrigðiskerfi þjóðarinnar sé í molum og gera þarf umbætur á því sem fela jafnframt í sér að fólk geti notið heilbrigðisþjónustu óháð búsetu eða efnahag og breyta þarf velferðarkerfinu þannig að þeir sem þurfa að treysta á aðstoð þess til framfærslu verði ekki um leið fastir í gildru fátæktar.

Svæðisfélags VG á Vestfjörðum skorar á stjórnvöld að standa við samþykkta samgönguáætlun og sjá til þess að eðlileg uppbygging atvinnulífs geti farið fram um land allt.  Minnt er á að flug og sjúkraflug skiptir íbúa landsbyggðarinnar verulegu máli.

Í ljósi frétta af landvinnslu HB Granda á Akranesi segir í ályktun VG á Vestfjörðum: „Fundurinn átelur útgerðarfyrirtæki sem sýna samfélögum sem þau starfa í slíka vanvirðingu og hvetur forsvarsmenn Akranesbæjar til að nýta fjármuni sem ætlaðir eru til atvinnuuppbyggingar í önnur verkefni en þau sem felast í sérstökum stuðningi við HB Granda.“

VG á Vestfjörðum bendir á mikilvægi þess að Menntaskólinn á Ísafirði geti sinnt kennslu verknáms eins og verið hefur og krefst þess að menntamálaráðherra og þingmenn svæðisins sjái til þess að tímabundin fækkun nemenda sem fyrirsjáanleg er á næstu árum, verði ekki til að draga úr fjárframlögum og þar með námsframboði við skólann með slæmum afleiðingum fyrir samfélagið allt.

Á fundinum var kjörin ný stjórn félagsins. Hana skipa: Sigríður Gísladóttir formaður, Ágústa Guðmundsdóttir gjaldkeri, Jóna Benediktsdóttir ritari, Svava Rán Valgeirsdóttir meðstjórnandi og Gígja S. Tómasdóttir meðstjórnandi.

DEILA