Snorri og Caitlin unnu skautið

Landsliðsmaðurinn Snorri Einarsson varð fyrstur í fyrstu keppnisgrein Fossavatnsgöngunnar, en keppt var í 25 km göngu með frjálsri aðferð í gær. Snorri kom í mark á tímanum 01:08:36. Bandaríkjamaðurinn Brian Glegg kom næstur í mark hálfri mínútu á eftir Snorra og Jake Brown frá Bandaríkjunum kom þriðji í mark einni mínútu á eftir sigurvegaranum.

Snorri er fæddur og uppalinn í Noregi, á íslenskan föður en norska móður, og keppti þar til á síðasta ári undir merkjum Noregs en í ár gekk hann til liðs við íslenska landsliðið.

Fyrst kvenna var Caitlin Gregg frá Bandaríkjunum á tímanum 01:16:40 og Britta Johansson Norgren frá Svíþjóð önnur á tímanum 01:18:03. Þriðja í mark var Laura McCabe frá Bandaríkjunum á tímanum 01:19:38.

Fyrstu heimamanna var Albert Jónsson, en hann hafnaði í 8.sæti á tímanum 01:17:23.

Í gær var einnig gengin 5 km ganga, en sú ganga er sniðin fyrir yngri kynslóðina. Fyrstur drengja var Ólafur Pétur Eyþórsson frá Akueyri á tímanum 22:01. Annar var Ástmar Helgi Kristinsson, Ísafirði, á tímanum 22:32 og þriðji var Frosti Gunnarsson, einnig frá Ísafirði, á tímanum 23:57.

Í stúlknaflokki var Hrefna Dís Pálsdóttir, Ísafirði, fyrst í mark á tímanum 23:36. Önnur var Unnur Guðfinna Daníelsdóttir frá Ísafirði á tímanum 24:02 og Beth Ireland frá Bretlandi var þriðja á tímanum 24:26.

DEILA