Snerpa leggur ljósleiðara að Dýrfjarðargöngum

Gangamunni Dýrafjarðarganga við Rauðsstaði í Arnarfirði.

Í síðustu viku var samið við Snerpu Ísafirði að leggja ljósleiðara að væntanlegum munna Dýrfjarðarganga á Rauðsstöðum í Arnarfirði.  Í fyrstu, það er á verktímanum, tengjast skrifstofur verktaka og eftirlits inn á strenginn. Nauðsynlegt er að hafa gott tölvusamband til að senda á milli gögn og líka til að nota við fjarfundi.  Samningurinn er aðeins um lagningu strengs og tengingu hans. Verktaki mun síðan væntanlega semja við Snerpu um síma og tölvutengingu skrifstofunnar.

Að loknum framkvæmdum verður strengurinn tengdur göngunum sjálfum og þar með hægt að tengja eftirlits- og stjórnkerfi ganganna. Eftirlitskerfið er öðrum þræði öryggiskerfi sem vaktar mengun og bilanir í búnaði. Hvort þessi tenging verður notuð þá er ekki ákveðið, en fleiri möguleikar kunna að opnast.

Strengurinn sem Snerpa leigir sér aðgang að og notar til að útvega Vegagerðinni og öðrum tengingu að Rauðsstöðum, er strengur sem fyrirtækið Orkufjarskipti á og liggur frá Tjaldanesi inn í Mjólkárvirkjun. Tilgangur hans er að tengja Mjólkárvirkjun og spennuvirki  fyrir Landsnet og Orkubúið við umheiminn. Ljósleiðarastrengur Mílu sem liggur um Vestfirði fer yfir Arnarfjörð og kemur á land á Tjaldanesi  Með göngunum opnast síðar möguleiki á tengingu til Dýrafjarðar.

DEILA