Skaginn 3X hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands

Skaginn 3X hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti Ingólfi Árnasyni, framkvæmdastjóra Skaginn 3X verðlaunin fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum og þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur m.a. mið af verðmætaaukningu útflutnings, þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta sem og markaðssetningu á nýjum markaði.

Skaginn 3X hefur hannað,  þróað og smíðað nýjar tæknilausnir fyrir sjávarútveginn í samstarfi við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem vakið hafa mikla athygli hér heima og erlendis undanfarið.

,,Það er mikill heiður sem okkur er sýndur með þessum verðlaunum sem Útflutningsverðlaun forseta Íslands eru. Síðustu mánuði hefur Skaginn 3X unnið til nokkurra verðlauna m.a. Sviföldunnar og Nýsköpunarverðlauna Íslands og við erum stolt og ánægð með þann árangur sem fyrirtækið hefur náð. Skaginn 3X er fyrsta fyrirtækið til að hljóta bæði Nýsköpunarverðlaun Íslands og Útflutningsverðlaun forseta Íslands á sama árinu sem er sérlega ánægjulegur og góður vitnisburður um starf okkar. Tæknin sem fyrirtækið hefur þróað við vinnslu og kælingu á afla færir afköst og gæði upp á annað stig en áður hefur þekkst. Það er einnig mjög ánægjulegt á þessum tímamótum að nefna að margar lausnum okkar eru þróaðar í virku og nánu samstarfi við íslenskan sjávarútveg, sem er okkar kröfuharðasti markaður“ segir Ingólfur Árnason, framkvæmdstjóri Skaginn 3X.

Skaginn 3X er með starfsstöðvar á fjórum stöðum á landinu, Akranesi, Ísafirði, Akureyri og Reykjavík og eru starfsmenn í dag um 200 talsins.

bryndis@bb.is

DEILA