Rokkstjórinn gerir ekki upp á milli atriða

Kristján Freyr Halldórsson.

Það styttist í Aldrei fór ég suður, en kveikt verður á mögnurunum og volumetakkinn keyrður upp í 11 um kvöldmatarleytið á föstudaginn langa. Að vanda hafa margir helstu tónlistarmenn landsins boðað komu sína á þessa sívinsælu hátíð. Þegar úr mörgu og góðu er að velja vandast valið þegar eins fánýt spurning og hvað hlakkar þig mest til að sjá er borin upp. „Ég sem rokkstjóri geri að sjálfsögðu ekki upp á milli atriða en ég verð að segja að það er sérstaklega ánægjulegt að nýkrýndir sigurvegarar Músíktilrauna eru heima úr héraði og ég hlakka verulega til að sjá þær stíga á stokk.“ segir Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður.

Það eru ekki mörg ár síðan sá háttur komst á að sigurvegari Músíktilrauna er boðið að spila á Aldrei fór ég suður og nú í annað sinn á þremur árum eru það heimamenn, fyrst Rythmatik frá Suðureyri og nú súgfirsk/dýrfirski dúettinn Between Mountains. Dúettinn skipa þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir.

Kristján Freyr segir að fyrir utan að hans heimahjarta hafi tekið aukaslag við sigur stúlknanna, þá sé sigur þeirra að sumu leyti tímanna tákn. Tónlistarbransinn hefur verið einkar karllægur, þó undantekningar séu á því. Hann segir að þegar horft er yfir sviðið í dag, sést að mikil breyting hefur orðið á og ungar stelpur eru í bílskúrum um allt land að plokka bassa og berja húðir.

„Þessi þróun sést glögglega þegar maður lítur til baka á kynjahlutföllin á fyrstu Aldrei fór ég suður hátíðunum og ber þau saman við síðustu hátíðir. Það hallar enn á konur, en þetta hefur batnað mikið,“ segir Kristján Freyr rokkstjóri.

Breiddin hefur frá upphafi verið aðalsmerki Aldrei fór ég suður. Á hátíðinni er jafnlíklegt að heyra argasta dauðarokk, fínlegt tölvupopp og 50 manna karlakór syngja klassísk ættjarðarlög. Hátíðin í ár er engin undantekning hvað þetta varðar.

Á Aldrei fór ég suður 2017 spila:

 • Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar
 • Soffía
 • Karó
 • KK Band
 • Mugison
 • Kött Grá Pjé
 • HAM
 • Between Mountains
 • Hildur
 • Vök
 • Börn
 • Emmsjé Gauti
 • Rythmatik
 • Valdimar

 

DEILA