Portúgalskur matur á Kaffi Ísól

Marco á tröppum Kaffi Ísólar

Í fjölmenningarsamfélaginu á Vestfjörðum hafa íbúar fengið að njóta ávaxta þess að ekki reki allir íbúar uppruna sinn aftur í íslenska torfkofa. Birtingarmyndirnar eru með ýmsum hætti og margir kunna vel að meta þann anga sem snýr að fjölbreytni í matargerð – að það hafi í raun komið fólk frá öðrum heimshornum sem kenndi okkur að matur gat verið hið mesta lostæti í stað þess að vera einungis eldsneyti til að komast í gegnum dagana, en matarmenning hér á landi hefur þróast hratt síðustu áratugi og gætir nú áhrifa alls staðar frá. Á Kaffi Ísól á Ísafirði er nú fyrirhugað að bjóða upp á portúgalskan mat og er það Marco Santos sem hefur tekið sér stöðu við hlóðirnar þaðan sem hann mun töfra fram allra handa rétti frá heimalandi sínu Portúgal.

Marco flutti hingað til lands fyrir ellefu árum og hefur hann að mestu verið búsettur hér síðan ef undan eru skilin tvö ár þar sem hann bjó í Finnlandi ásamt unnustu sinni, Hennu-Riikku Nurmi, sem er þaðan en hefur síðustu ár séð um að halda uppi öflugri danskennslu hjá vestfirskum börnum og ungmennum við Listaskóla Rögnvaldar.

Marco var ekki mikið að elda í heimahögunum, en hann hefur eldað á veitingastaðnum Húsinu á Ísafirði í fjögur ár. Hann ákvað að söðla um og kynna fyrir norðurslóðaíbúum og gestum þeirra suðrænni stemningu í gegnum bragðlaukana og segist ætla að vera með portúgalska rétti með tvisti eða leyfa sér stundum að leika sér aðeins með þá.  Á matseðlinum verður að finna súpu með heimagerðu brauði, smárétti í tapasstíl, kjötspjót þar sem hægt verður að velja á milli lambakjöts, kjúklings og svínakjöts sem er grillað á teini með grænmeti og borið fram með púrtvínssósu. Þá verður boðið upp á rétt dagsins sem Marco verður þá annaðhvort kjöt eða fiskur, en sjávarfang er mikið notað í portúgalskri matargerð og má þar nefna vinsælar fiskikökur sem oft eru gerðar úr saltfiski, en hann hefur notið fádæma vinsælda þar í landi og segir Marco í það minnsta 1001 þekkt leið til að matreiða saltfisk í Portúgal. Þá verður einnig að finna portúgalskar veigar í fljótandi formi sangríu sem er flestum vel kunn sem heimsótt hafa suðurevrópskar slóðir.

Kaffi Ísól opnar klukkan 18 á föstudag með þessum nýju áherslum.

annska@bb.is

 

 

 

DEILA