Opna fyrir almenna umferð á Fossavatnsgönguna

Sú nýbreytni verður í Fossavatnsgöngunni í ár að opnað verður fyrir almenna bílaumferð upp á Seljalandsdal rétt fyrir startið á laugardagsmorgun. Síðustu ár hefur öll almenn bílaumferð verið bönnuð til að auðvelda umferð rútubifreiða sem flytja um eitt þúsund keppendur upp á dal. „Reynsla síðustu ára segir okkur að umferð einkabíla ætti ekki að þvælast fyrir. En ég bendi fólki á að ekki verður hægt að leggja á bílastæðið við rásmarkið heldur á stæðin fyrir neðan og mögulega þarf fólk að leggja við Skíðheima og ganga upp að rásmarkinu,“ segir Heimir Hansson sem situr í mótsstjórn Fossavatnsgöngunnar. Vegfarendur sem ætla sér upp á dal eru beðnir að sýna rútubílstjórum sem verða á ferðinni tillitssemi.

Umferð verður hleypt á veginn kl. 08.45 en 50 km gangan hefst kl. 09. Fyrstu keppendur í 50 km göngunni ættu að koma í mark um ellefuleytið. Veðurspá fyrir laugardag er góð og því tilvalið fyrir Ísfirðinga að skella sér á dalinn og fylgjast með heimsklassa göngumönnum eins og Petter Northug spreyta sig í fjallasal Skutulsfjarðar.

Fossavatnsgangan hefst í dag með fjölskyldugöngu og 25 km göngu með frjálsri aðferð og engar takmarkanir verða á umferð upp á Seljalandsdal í dag.

Einnig verður boðið uppá rútuferðir á Seljalandsdal og nánari upplýsingar um tíðni ferða og stoppistöðvar má finna á www.fossavatn.com

smari@bb.is

 

DEILA