Nágrannar geta gert veigamiklar athugasemdir

Tillaga Kanon arkitekta hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppninni.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar segja verðlaunatillögu í hönnunarsamkeppni um breytingar á Sundhöll Ísafjarðarbæjar gangi gegn ákvæðum gildandi deiluskipulags fyrir svæðið. Í bókun Sigurðar Mars Óskarssonar og Guðfinnu Hreiðarsdóttur kemur fram að í deiluskipulagi frá 2014 er talið að fjölga þurfi bílastæðum á svæðinu og við allar breytinga eða nýbyggingar fækki bílastæðum ekki á lóðum.

Þá vísa þau í greinargerð deiluskipulagsins þar sem fram kemur að ekki er talið forsvaranlegt að auka byggingarmagn á lóðum án þess að séð verði fyrir hæfilegum fjölda bílastæða. Í bókuninni segir að breytt nokun baklóðar Sundhallar gangi þvert á þessi ákvæði gildandi deiliskipulags og fækki bílastæðum um 16.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er kvöð um umferð að Austurvegi 7 um lóðir Austurvegar 9 (Sundhöllin) og 11 (Tónlistarskólinn). Breytt nýting Sundhallarlóðar krefst þess að umræddri kvöð verði aflétt í skipulagsferli. Í bókuninni segir að eigendur Austurvegar 7 eigi ríkan rétt til athugasemda enda um verulegt hagsmunamál þeirra að ræða.

Með breyttri nýtingu baklóðar Sundhallar er ljóst að grenndaráhrif verða umtalsverð. Sundlaugargarður með vatnsrennibraut hlýtur að valda næstu nágrönnum ónæði. Komi til framkvæmda þarf deiliskipulagsbreytingu og Sigurður Mar og Guðfinna telja ljóst að næstu nágrannar gætu gert mjög veigamiklar athugasemdir sem taka þyrfti tillit til.

Að öðru leyti segir í bókuninni að verðlaunatillagan leysi vel það sem lagt var upp með í forsögn samkeppninnar – aðgengi og nýting rýmis almennt viðunandi og margt haganlega leyst, en áréttað að sólarleysi rýri gæði baklóðarinnar þar sem útisvæði Sundhallarinnar á að vera.

DEILA