Heimiliskettir á Ísafirði drápust vegna eitrunar

Heimiliskettir á Ísafirði drápust vegna eitrunar

Tveir kettir hafa drepist á Ísafirði af því er virðist úr frostlagareitrun. Báðir kettirnir voru heimiliskettir við Urðarveg. Komið var með fyrri köttinn sem veiktist til dýralæknis á Ísafirði á miðvikudag og þurfti að aflífa hann síðar um daginn. Seinni kötturinn veiktist á fimmtudag og var farið með hann suður á Dýraspítalann í Garðabæ á föstudag eftir að hann hafði fengið mótefni hjá dýralækni á Ísafirði, en eftir að búið var að gera allt sem hægt var að gera fyrir hann á Dýraspítalanum þurfti í gær að aflífa hann vegna lifrarbilunar sem kötturinn fékk í kjölfar eitrunarinnar.

Ekki er vitað hvernig kettirnir komust í tæri við frostlöginn, en mögulegt er að þeir hafi komist í fötu sem notuð er til músaveiða, þar sem frostlegi er gjarnan blandað saman við vatn til að það frjósi ekki. Sigríður Inga Sigurjónsdóttir dýralæknir á Ísafirði segir slíkar gildrur afar varasamar þar sem önnur dýr geta komist í þær og þurfi helst að verða vitni að dýrunum komast í eitrið svo megi bjarga þeim, sem sé erfiðara í tilfelli katta en hunda til að mynda, þar sem kettir fara um á eigin vegum án eigenda sinna og því oft erfitt að bregðast fljótt við.

Frostlögur inniheldur ethylen glýkól sem er mjög eitrað fyrir dýr og menn. Innbyrði dýr frostlög þurfa þau að komast til dýralæknis innan þriggja tíma til að eiga möguleika á að lifa eitrunina af. Í desember síðastliðnum drápust kettir í Hafnarfirði eftir að hafa komist í frostlög og var þá sagt í frétt á Fésbókarsíðu Dýraspítalans í Garðabæ að kettir kæmust oftast í frostlög þegar hann hefur náð að leka í polla eða inni í bílskúrum og þar sem frostlögurinn er sætur á bragðið þá þætti dýrum hann ekki vondur og þannig gerðist það stundum að illvirkjar veldu þessa leið til að eitra fyrir dýrum.

Þar segir jafnframt um einkenni eitrunarinnar að þau komi fram allt frá hálfri klukkustund að tólf tímum eftir inntöku en oftast sé ferlið mjög hratt og kvalarfullt. Innan tveggja tíma eftir inntöku eitursins byrjar kettinum að líða mjög illa, slefar og verður niðurdreginn. Seinna eða daginn eftir hættir hann að éta, kastar upp ítrekað og á erfitt með að anda. Hann verður mjög máttfarinn, fær lömunareinkenni í útlimi og fellur í dá áður en hann deyr.

Birgitta Rós Guðbjartsdóttir er ein þeirra sem misstu köttinn sinn vegna eitrunarinnar á Ísafirði og segir hún að samkvæmt starfsfólki Dýraspítalans í Garðabæ, þangað sem kötturinn var sendur til meðferðar, allar líkur á að um eitrun af völdum frostlagar hafi verið að ræða. Matvælastofnun hefur tekið dýrið til krufningar og er niðurstaðna að vænta eftir páska. MAST biður þá sem grunar að kötturinn sinn hafi fengið samskonar eitrun að tilkynna það til þeirra.

annska@bb.is

DEILA