Hefur áhyggjur af húsnæðismálum á Hlíf

Öldungaráð Ísafjarðarbæjar lýsir yfir áhyggjum af þróun húsnæðismála á Hlíf. Skortur er á húsnæði fyrir eldri borgara í sveitarfélaginu og því telur öldungaráð bagalegt að íbúðir, sem sérstaklega eru byggðar sem úrræði fyrir eldri borgara, séu nýttar fyrir aðra. Öldungaráð leggur til við húsfélög Hlífar I og II að kannað verði hvort unnt sé að tryggja að íbúðir sem losna verði annað hvort settar á sölu eða á leigumarkað við fyrsta tækifæri.

Á fundi öldungarráðsins í gær var einnig samþykkt að hvetja bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar til þess að tryggja eldri borgurum aukna þjónustu t.d. með sérstökum fulltrúa sem sinni íþrótta- og tómstundamálum eldri borgara í Ísafjarðarbæ. Öldungaráðið bendir á að tómstundafulltrúi Ísafjarðarbæjar sinni ungu fólki sérstaklega en þarfir eldri borgara séu jafn brýnar fyrir slíka þjónustu. Eldri borgurum fjölgar hratt og raunhæft að gera ráð fyrir að því fylgi aukin þjónusta og utanumhald til þess að tryggja að lýðheilsusjónarmið nái til allra íbúa Ísafjarðarbæjar.

DEILA